Við erum trú hlutverki okkar og framfylgjum stefnu stjórnvalda um bætta lýðheilsu. Við styðjum samfélagslega ábyrgð í áfengis- og tóbaksmálum í sátt við samfélagið.
Stór hluti tekna ÁTVR er með einum eða öðrum hætti hluti af tekjum ríkissjóðs, í formi áfengis- og tóbaksgjalda, virðisaukaskatts og arðs. Í ár nam þessi upphæð um 30.780 milljónum króna, en var 26.228 milljónir króna árið 2019. Alls nam arður ÁTVR til ríkissjóðs 1.000 milljónum króna.
1. janúar voru gerðar breytingar á áfengisgjöldum. Gjöldin hækkuðu um 2,5% á alla flokka, það er bjór, léttvín og sterkt áfengi. Á sama tíma hækkaði tóbaksgjald á vindlinga, vindla og neftóbak um 2,5%.
Hagnaður ÁTVR var 1.821 milljónir króna, í samanburði við 1.056 milljónir króna árið 2019. Rekstrartekjur ársins voru 44.904 milljónir króna og hækkuðu um 21% á milli ára. Rekstrargjöld námu 42.973 milljónum króna, þar af var vörunotkun 38.052 milljónir króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 2.206 milljónir króna, eða 4,9% miðað við 3,7% á fyrra ári. Arðsemi eiginfjár á árinu var 28,4%.
Tölur í sviga sýna 2019.
Tekjur af sölu áfengis voru 34.636 milljónir króna án vsk. og hækkuðu um 27% milli ára. Alls voru seldir 26,8 milljónir lítra af áfengi. Sala ársins var 18,3% meiri í lítrum í samanburði við fyrra ár. Sala jókst í öllum flokkum, í léttvíni, sterku áfengi og bjór. Mest var aukningin í sölu á léttvíni eða 26,5%.
Tekjur af sölu tóbaks voru 10.077 milljónir króna án vsk. og jukust um 5% milli ára. Sala á neftóbaki dróst saman um tæplega 45% en jókst í öðrum flokkum. Sala á sígarettum jókst um 8,6% eftir samdrátt undanfarin ár.
Ýmsar framkvæmdir voru í Vínbúðum á árinu. Þær helstu eru að Vínbúðirnar í Mosfellsbæ, á Þórshöfn og á Blönduósi fluttu í stærra og betra húsnæði. Vínbúðirnar á Reyðarfirði og Djúpavogi voru endurnýjaðar og stækkaðar. Unnið var að endurbótum í Vínbúðinni í Kringlunni, þar sem settur var upp kælir. Kælir Heiðrúnar var stækkaður og vöruval jafnframt aukið. Unnið var að endurbótum á húsnæði Vínbúðarinnar á Eiðistorgi.
Með markvissri vörustjórnun er leitað leiða til að koma vörum til Vínbúða á sem skilvirkastan hátt. Um leið er hugað að því að lágmarka umhverfisáhrif flutninga. ÁTVR dreifir vörum með eigin bifreiðum á höfuðborgarsvæðið, til Akraness, Borgarness, Reykjanesbæjar, Grindavíkur og í sex Vínbúðir á Suðurlandi; Hveragerði, Þorlákshöfn, Selfoss, Flúðir, Hellu og Hvolsvöll. Aðrir flutningar eru boðnir út.
Til að auðvelda orkuskipti eigin bíla og hvetja starfsfólk til að nýta sér rafmagnsbíla þá hafa verið settar upp 22 hleðslustöðvar á Stuðlahálsi. Stöðvarnar eru aðgengilegar starfsfólki og viðskiptavinum Vínbúðarinnar Heiðrúnar.