Inngangur
Formáli forstjóra
Inngangur
Formáli forstjóra

Árið 2020 verður lengi í minnum haft hjá starfsfólki ÁTVR. Reksturinn var óvenjulegur og var afkoma ársins langt umfram áætlun. Heildarveltan fór yfir 50 milljarða og hefur aldrei, í tæplega hundrað ára sögu ÁTVR, verið svo há. Í upphafi ársins var ekkert sem gaf til kynna að eitthvað óvenjulegt væri á seyði en þegar líða fór á veturinn komu uggvænleg tíðindi frá Kína. Skömmu síðar var veirufaraldurinn allsráðandi.

Snemma varð ljóst að mikið álag biði starfsfólks. Veitingahús og barir meira og minna lokaðir, Fríhöfnin á Keflavíkurflugvelli óstarfhæf vegna þess hversu fáir voru á ferðalagi og margir sem alla jafna eyða vetrinum í útlöndum komnir heim. Fljótlega jókst álagið í Vínbúðunum og ljóst að beita þurfti öllum ráðum til þess að ráða við ástandið. Söluaukningin fór langt fram úr öllum áætlunum. Ofan á þetta bættust umfangsmiklar sóttvarnarráðstafanir sem settar voru í gang til þess að verja starfsfólk og viðskiptavini fyrir smiti.

Álagið var einna mest í dreifingarmiðstöðinni. Þaðan er mestöllu áfengi sem ÁTVR selur dreift til Vínbúðanna. Þar var nauðsynlegt að skipta starfseminni upp í fjögur sóttvarnarhólf og allur samgangur verulega takmarkaður. Reglulega var allt sótthreinsað til þess að koma í veg fyrir smit. Á vinnustað þar sem starfa yfir 40 manns og töluð eru átta tungumál var mikil áskorun að láta aðgerðirnar ganga upp og tryggja eðlilega starfsemi. Miðað við eðlileg afköst í dreifingarmiðstöðinni fara þar í gegn rúmlega 22 milljónir lítra á ári. Ekkert má út af bera til þess að dreifingin fari ekki úr skorðum. Þegar leið á sumarið fór reksturinn að þyngjast og álagið að aukast. Með ótrúlegu átaki og samvinnu allra tókst að láta starfsemina ganga upp við þessar erfiðu aðstæður. Lítrarnir sem fóru í gegn um dreifingarmiðstöðina á árinu fóru yfir 26 milljónir og jókst magnið á árinu um rúmar fjórar milljónir lítra.

Að öllu jöfnu er mikill veltuhraði í dreifingarmiðstöðinni. Á árinu jókst veltuhraðinn um 20% og fór í 42. Það þýðir að öllum lagernum er velt á innan við 9 dögum að meðaltali yfir árið en meðalbirgðir í dreifingarmiðstöðinni eru um 600 þús. lítrar. Tölurnar sýna ótvírætt hvað gekk á og er með ólíkindum að þetta hafi gengið upp miðað við hvernig ástandið var.

Birgjar ÁTVR stóðu sig einstaklega vel við að útvega vörur en ÁTVR kaupir allt áfengi af innlendum birgjum. Heilmikil vinna var hjá birgjum við að skipta á milli söluaðila þegar Fríhöfnin og veitingahús duttu meira eða minna út og ÁTVR var nánast eini söluaðili áfengis í landinu. Það tókst með ágætum að tryggja framboð vöru og eiga birgjarnir þakkir skildar fyrir gott samstarf.

Starfsfólk skrifstofu lá ekki heldur á liði sínu. Skrifstofunni var hólfaskipt til þess að koma í veg fyrir smit og aðgangur milli hólfa bannaður. Mötuneytinu var lokað. Þeir sem gátu unnið heima gerðu það. Tómlegt var á skrifstofunni. Allt var gert til þess að koma í veg fyrir smit. Mikilvægast af öllu var að halda vöruflæðinu gangandi og tryggja að Vínbúðirnar fengju næga vöru handa viðskiptavinunum. Ekki var nóg að dreifingarmiðstöðin gæti afgreitt pantanir til Vínbúða heldur varð að tryggja að vörurnar kæmust tímanlega í hillur verslananna. Með samstilltu átaki tókst að láta þetta ganga upp en svo sannarlega var handagangur í öskjunni. Bakvarðasveit Vínbúðanna var stofnuð til þess að aðstoða við dreifingu og áfyllingu vöru og samanstóð sveitin af starfsfólki skrifstofu og fleirum og má segja að allir sem vettlingi gátu valdið hafi boðið fram aðstoð til þess að hægt væri að koma vörum í hillur Vínbúðanna. Skrifstofufólkið á heiður skilinn fyrir að vera tilbúið til þess að leggja fram krafta sína við gerólík störf og fyrir utan venjulegan vinnutíma.

Starfsfólk Vínbúðanna starfar í framlínunni og þangað koma viðskiptavinirnir. Mikið var í húfi að verjast smiti þannig að starfsemin gengi áfallalaust. Komið var upp alls konar sóttvarnarbúnaði og allir höfðu aðgang að handspritti og grímum. Einnig var settur upp ýmis hlífðarbúnaður til þess a verja starfsfólkið smiti. Aðgangstakmarkanir fyrir hverja búð voru í gildi og einungis tiltekinn fjöldi viðskiptavina leyfður hverju sinni. Það er hverjum manni ljóst að við þessar aðstæður er afskaplega erfitt að vera í framlínustarfi og sinna þjónustu við viðskiptavini. Veltuhraðinn í Vínbúðunum fór yfir 24 að meðaltali á árinu. Það þýðir að öllum lagernum í verslunum er velt að jafnaði tvisvar í mánuði. Það er fáheyrður veltuhraði og ljóst að allir liðir í aðfangakeðjunni verða að ganga eins og smurð vél. Það var því sérstaklega ánægjulegt að fá niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar þetta árið en ÁTVR hefur aldrei fengið hærri einkunn hjá viðskiptavinum sínum eða 75,4 stig. Niðurstaðan er mikil viðurkenning fyrir starfsfólk ÁTVR.

Á árinu 2020 komu alls 5,5 milljónir viðskiptavina til ÁTVR og keyptu þeir 26,8 milljónir lítra af áfengi. Áfengi var selt fyrir 38,4 milljarða og alls jókst áfengissalan um 18,29% á árinu. Stærsti dagurinn var 30. desember. En þann dag komu 43.767 viðskiptavinir til ÁTVR. Seldir voru 286.189 lítrar yfir daginn og fór sala dagsins yfir hálfan milljarð.

Tóbak var selt fyrir 12,5 milljarða á árinu. ÁTVR innheimtir tóbaksgjald. Gjaldið nam 5.969 m.kr. á árinu 2020 og hækkaði um 284 milljónir frá árinu 2019. Sala vindlinga í magni jókst um 8,6%. Selt magn neftóbaks var 25.434 kg og var samdrátturinn 44,8% frá síðasta ári.

Samfélagsleg ábyrgð er í kjarna fyrirtækisins og stuðlar hún að aukinni sjálfbærni með innleiðingu á hringrásarhagkerfinu. Til að ná markmiðum um sjálfbærni hefur stefna fyrirtækisins verið fléttuð saman við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og loftslagsmarkmið Festu og Reykjavíkurborgar. Unnið var áfram með Græn skref í ríkisrekstri, vistvæn innkaup og grænt bókhald. ÁTVR heldur áfram að kolefnisjafna alla beina losun og mun halda áfram að þróa kolefnisbókhald fyrirtækisins. Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að vinna með nemum í háskólasamfélaginu í sjálfbærniverkefnum.

Greint hefur verið frá sjálfbærni í rekstri fyrirtækisins frá árinu 2012 með GRI (Global Reporting Initiative) aðferðafræðinni og má sjá í sjálfbærniskýrslunni að minni sóun og áhersla á umhverfisvernd skilar fjárhagslegum ávinningi. Fyrirtækið hefur unnið að orkuskiptum í samgöngum. Nú eru 22 hleðslustöðvar fyrir bíla fyrirtækisins, starfsfólk og viðskiptavini á Stuðlahálsi 2.

Norræn samvinna systurfyrirtækja er mikilvæg og þar eru skilgreind markmið til ársins 2025. Í ár var unnið í betri nýtingu á vatni og mannréttindum í framleiðslu. Á næsta ári verður unnið í líffræðilegum fjölbreytileika og heilbrigði jarðvegsins.

Ég hef aldrei verið stoltari af því að vinna hjá ÁTVR en á síðasta ári. Starfsfólk verslunarinnar er einstakt í sinni röð. Það er með ólíkindum að mitt í öllu þessu álagi hafa viðskiptavinir ÁTVR gefið okkur hæstu einkunn sem við höfum nokkru sinni fengið. Ég færi mínu frábæra samstarfsfólki bestu þakkir fyrir samstarfið á árinu. Betra starfsfólk getur enginn forstjóri óskað sér.

Ívar J. Arndal

Heildarstefna
Inngangur
Heildarstefna

Hlutverk

Að framfylgja stefnu stjórnvalda um bætta lýðheilsu og samfélagslega ábyrgð í áfengis- og tóbaksmálum í sátt við samfélagið.

Stefna

Að vera í hópi bestu þjónustufyrirtækja landsins og fyrirmynd á sviði samfélagsábyrgðar.

Við veitum framúrskarandi og fjölbreytta þjónustu með jákvæðu viðmóti, virðingu og faglegri ráðgjöf. Það er okkur hjartans mál að mæta þörfum og væntingum viðskiptavina með fagmennsku og fræðandi upplýsingum.

Upplifun – Vöruúrval – Traust

Frábært starfsfólk er grunnur að góðum árangri. Við viljum eftirsóknarverðan vinnustað þar sem samskipti einkennast af lipurð, þekkingu og ábyrgð. Áhersla er lögð á að starfsfólk geti vaxið í starfi og aflað sér þekkingar sem stuðlar að starfsánægju og framúrskarandi þjónustu.

Starfsumhverfi – Þekking – Liðsheild

Fagmennska, hagkvæmni og ábyrg vinnubrögð einkenna starfsemina. Lögð er áhersla á mælanleg markmið til að tryggja árangur á öllum sviðum. Við fylgjumst með og tileinkum okkur nýjungar til framfara.

Ábyrgð – Fagmennska – Nýsköpun

Við leggjum áherslu á góð tengsl og samvinnu við birgja og þjónustuaðila. Við gætum jafnræðis í samskiptum og við val og dreifingu á vörum. Öflug rafræn samskipti og birgjavefur bæta þjónustu og upplýsingaflæði.

Jafnræði – Samtal – Upplýsingar

Við erum fyrirmynd í samfélagsábyrgð og þjónustu. Við stuðlum að sátt og jákvæðu orðspori um hlutverk okkar. Við berum virðingu fyrir umhverfinu og leitum leiða til að lágmarka vistspor okkar.

Sjálfbærni – Samfélagið – Ímynd

ÁTVR vinnur eftir 15 ÁHERSLUM sem styðja við fimm meginþætti starfseminnar.

Stefnan gildir frá 1. janúar 2020

Árið 2019 var unnið að stefnumótun og endurskoðun heildarstefnu Vínbúðarinnar með þátttöku starfsfólks. Ný heildarstefna tók gildi 1. janúar 2020 og byggir hún á fimm meginþáttum starfseminnar: þjónustu, starfsfólki, starfsháttum, birgjum og samfélagi. Fyrir meginþættina hafa verið skilgreindar 15 áherslur og út frá þeim eru aðgerðaáætlanir og mælikvarðar unnir.

ÁTVR hefur sett sér stuðningsstefnur í samræmi við heildarstefnu.

Framkvæmdaráð
Inngangur
Framkvæmdaráð
Ívar J. Arndal
Forstjóri
Sigrún Ósk Sigurðardóttir
Aðstoðarforstjóri
Sveinn Víkingur Árnason
Framkvæmdastjóri
Kristján M. Ólafsson
Framkvæmdastjóri
Skipulag og stjórnun
Inngangur
Skipulag og stjórnun

ÁTVR starfar eftir lögum um verslun með áfengi og tóbak nr. 86/2011. Lögin gilda um smásölu á áfengi og heildsölu á tóbaki. Markmið laganna er þríþætt: að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis og heildsölu tóbaks sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð, að takmarka og stýra aðgengi að áfengi og tóbaki og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu, að vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis og tóbaks og takmarka framboð á óæskilegum vörum. Fjármála- og efnahagsráðherra skipar forstjóra sem fer með stjórn stofnunarinnar og ber ábyrgð á daglegum rekstri.

Skipuritið gildir frá 1. ágúst 2020

Skipuritið sýnir starfsemi fyrirtækisins á myndrænan hátt. Meginsviðin eru tvö, vörudreifing og heildsala tóbaks, og sölu- og þjónustusvið. Stoðsviðin eru fjögur: fjárhagssvið, mannauðs- og starfsþróunarsvið, rekstrarsvið og vörusvið. Þeim er ætlað að styðja meginsviðin tvö. Þann 1. ágúst tók gildi nýtt skipurit þegar Kristján M. Ólafsson var ráðinn framkvæmdastjóri Sölu- og þjónustusviðs. Framkvæmdastjórar eru þrír og bera þeir ábyrgð á daglegri starfsemi sviðanna. Til að tryggja skilvirka stjórnun, funda forstjóri og framkvæmdastjórar að jafnaði vikulega. Vegna aðstæðna á árinu þurfti að endurhugsa alla fundi og upplýsingaflæði. Workplace varð miðpunktur í miðlun upplýsinga og tók að mestu við hlutverki reglulegra funda sem áður voru haldnir. Fjarfundabúnaður var settur upp á flestar starfsstöðvar til að tryggja betri samskipti og upplýsingaflæði.

Að jafnaði hefur mikil áhersla verið á starfsemi verkefna og umbótahópa. Í ár var meginþungi verkefna vegna aðgerða er tengdust COVID-19. Meðal annars útfærsla á samkomutakmörkunum og að tryggja eins góða þjónustu og hægt væri. Stærstu verkefnaáskoranir tengdust vöruflæði vegna mikillar og óvæntrar söluaukningar sem hófst í mars.

Árs- og samfélagsskýrsla
Inngangur
Árs- og samfélagsskýrsla

Starfsemi ÁTVR er eingöngu á Íslandi. Árs- og samfélagsskýrslan nær yfir alla starfsemina og gildir fyrir árið 2020. Ísland er skilgreint sem nærsamfélag, allir stjórnendur eru íslenskir og búsettir á landinu. Skýrslan er gefin út á rafrænu formi og birt á vinbudin.is. Hægt er að prenta skýrsluna út í heild eða velja einstaka hluta hennar til útprentunar.

Við gerð skýrslunnar er fylgt Global Reporting Initiative (GRI) Standards. Tilgangurinn er að skrá og miðla með gagnsæjum hætti upplýsingum sem tengdar eru samfélagslegri ábyrgð. Í skýrslunni sem fylgir Core útgáfunni er gerð grein fyrir 38 mælikvörðum í öllum þremur flokkum sjálfbærni. Hægt er að nálgast heildaryfirlit og mælikvarða í sjálfbærnihluta skýrslunnar (hér). Gerð er grein fyrir mælikvörðum í texta skýrslunnar þar sem það á við.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun tóku gildi í ársbyrjun 2016. Þau eru framkvæmdaáætlun í þágu mannkyns, jarðar og hagsældar. Heimsmarkmiðin eru 17 talsins og þeim fylgja 169 undirmarkmið. Mælt er með því að fyrirtæki og stofnanir innleiði markmiðin í starfsemi sína. Hægt er að velja sér ákveðin markmið til að setja í forgang eða vinna með þau sem heild. ÁTVR hefur unnið með sex áherslumarkmið: heilsu og vellíðan, jafnrétti kynjanna, góða atvinnu og hagvöxt, ábyrga neyslu og framleiðslu, aðgerðir í loftlagsmálum og samvinnu um markmiðin. Í sérstöku yfirliti í skýrslunni er gerð grein fyrir einstökum áherslum.

Amfori eru leiðandi samtök í heimi viðskipta þar sem markmiðið er að tryggja að öll viðskipti skapi félagslegan, umhverfislegan og fjárhagslegan ávinning fyrir alla. Áfengiseinkasölur á Norðurlöndunum, þar með talið ÁTVR, eru aðilar að amfori. Siðareglur amfori eru lagðar til grundvallar í norræna samstarfinu (NAM – Nordic alcahol monopoly). Með aðild vilja einkasölur stuðla að aukinni sjálfbærni í aðfangakeðjunni og tryggja, eins og kostur er, að allar vörur sem boðnar eru til sölu séu framleiddar í samræmi við siðareglur. Á árinu var samstarf amfori og NAM aukið verulega til að ná sem bestum árangri og betri skilvirkni. Á hinn bóginn þurfti að fresta mörgum fyrirhuguðum verkefnum vegna COVID-19.

ÁTVR er meðlimur í Festu - miðstöð um samfélagsábyrgð og tekur virkan þátt í starfsemi félagsins. Hlutverk Festu er að efla samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og hvetja þau til að tileinka sér samfélagslega ábyrga starfshætti og stuðla að aukinni sjálfbærni.

Hagsmunaaðilar
Inngangur
Hagsmunaaðilar
Stefna ÁTVR er að vera í hópi bestu þjónustufyrirtækja landsins og fyrirmynd á sviði samfélagsábyrgðar.

Við mat á samfélagslegri ábyrgð hefur hagsmunaaðilum verið skipt í fimm flokka: viðskiptavinir, mannauður, samfélag, eigandi og birgjar. Gerð er grein fyrir áherslum gagnvart einstökum hagsmunaaðilum en allar miða þær að því að fylgja þeim áherslum sem koma fram í heildarstefnunni.

Sjálfbærnistjórnun
Inngangur
Sjálfbærnistjórnun
Markmið og mælikvarðar

Aðgerðaáætlun er unnin út frá stefnu og áherslum, að jafnaði til þriggja ára í senn. Á grunni þeirrar áætlunar er unnin ársáætlun með helstu verkefnum og ábyrgðaraðilum. Talsvert af áætluðum verkefnum ársins frestuðust vegna óvæntra aðstæðna í samfélaginu og önnur, sem höfðu mikil áhrif á starfsemina, komu í staðinn. Mælanleg markmið eru sett fyrir flesta þætti í rekstri og eru niðurstöður kynntar mánaðarlega meðal annars í skorkortum Vínbúðanna. Öll skorkort eru aðgengileg starfsfólki á sérstöku svæði, auk annarra gagnlegra upplýsinga sem snúa að rekstri. Stöðugt er unnið að því að þróa upplýsingar og gögn ætluð stjórnendum til að auðvelda ákvarðanir og auka yfirsýn.

Sjálfbærnistjórnun

Í töflunni má sjá helstu markmið og mælikvarða flokkað eftir hagsmunaaðilum með tilvísun í GRI mælikvarða og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Einnig er í töflunni tilvísun í siðareglur alþjóðasamtakanna amfori.