Snemma varð ljóst að mikið álag biði starfsfólks. Veitingahús og barir meira og minna lokaðir, Fríhöfnin á Keflavíkurflugvelli óstarfhæf vegna þess hversu fáir voru á ferðalagi og margir sem alla jafna eyða vetrinum í útlöndum komnir heim. Fljótlega jókst álagið í Vínbúðunum og ljóst að beita þurfti öllum ráðum til þess að ráða við ástandið. Söluaukningin fór langt fram úr öllum áætlunum. Ofan á þetta bættust umfangsmiklar sóttvarnarráðstafanir sem settar voru í gang til þess að verja starfsfólk og viðskiptavini fyrir smiti.
Álagið var einna mest í dreifingarmiðstöðinni. Þaðan er mestöllu áfengi sem ÁTVR selur dreift til Vínbúðanna. Þar var nauðsynlegt að skipta starfseminni upp í fjögur sóttvarnarhólf og allur samgangur verulega takmarkaður. Reglulega var allt sótthreinsað til þess að koma í veg fyrir smit. Á vinnustað þar sem starfa yfir 40 manns og töluð eru átta tungumál var mikil áskorun að láta aðgerðirnar ganga upp og tryggja eðlilega starfsemi. Miðað við eðlileg afköst í dreifingarmiðstöðinni fara þar í gegn rúmlega 22 milljónir lítra á ári. Ekkert má út af bera til þess að dreifingin fari ekki úr skorðum. Þegar leið á sumarið fór reksturinn að þyngjast og álagið að aukast. Með ótrúlegu átaki og samvinnu allra tókst að láta starfsemina ganga upp við þessar erfiðu aðstæður. Lítrarnir sem fóru í gegn um dreifingarmiðstöðina á árinu fóru yfir 26 milljónir og jókst magnið á árinu um rúmar fjórar milljónir lítra.
Að öllu jöfnu er mikill veltuhraði í dreifingarmiðstöðinni. Á árinu jókst veltuhraðinn um 20% og fór í 42. Það þýðir að öllum lagernum er velt á innan við 9 dögum að meðaltali yfir árið en meðalbirgðir í dreifingarmiðstöðinni eru um 600 þús. lítrar. Tölurnar sýna ótvírætt hvað gekk á og er með ólíkindum að þetta hafi gengið upp miðað við hvernig ástandið var.
Birgjar ÁTVR stóðu sig einstaklega vel við að útvega vörur en ÁTVR kaupir allt áfengi af innlendum birgjum. Heilmikil vinna var hjá birgjum við að skipta á milli söluaðila þegar Fríhöfnin og veitingahús duttu meira eða minna út og ÁTVR var nánast eini söluaðili áfengis í landinu. Það tókst með ágætum að tryggja framboð vöru og eiga birgjarnir þakkir skildar fyrir gott samstarf.
Starfsfólk skrifstofu lá ekki heldur á liði sínu. Skrifstofunni var hólfaskipt til þess að koma í veg fyrir smit og aðgangur milli hólfa bannaður. Mötuneytinu var lokað. Þeir sem gátu unnið heima gerðu það. Tómlegt var á skrifstofunni. Allt var gert til þess að koma í veg fyrir smit. Mikilvægast af öllu var að halda vöruflæðinu gangandi og tryggja að Vínbúðirnar fengju næga vöru handa viðskiptavinunum. Ekki var nóg að dreifingarmiðstöðin gæti afgreitt pantanir til Vínbúða heldur varð að tryggja að vörurnar kæmust tímanlega í hillur verslananna. Með samstilltu átaki tókst að láta þetta ganga upp en svo sannarlega var handagangur í öskjunni. Bakvarðasveit Vínbúðanna var stofnuð til þess að aðstoða við dreifingu og áfyllingu vöru og samanstóð sveitin af starfsfólki skrifstofu og fleirum og má segja að allir sem vettlingi gátu valdið hafi boðið fram aðstoð til þess að hægt væri að koma vörum í hillur Vínbúðanna. Skrifstofufólkið á heiður skilinn fyrir að vera tilbúið til þess að leggja fram krafta sína við gerólík störf og fyrir utan venjulegan vinnutíma.
Starfsfólk Vínbúðanna starfar í framlínunni og þangað koma viðskiptavinirnir. Mikið var í húfi að verjast smiti þannig að starfsemin gengi áfallalaust. Komið var upp alls konar sóttvarnarbúnaði og allir höfðu aðgang að handspritti og grímum. Einnig var settur upp ýmis hlífðarbúnaður til þess a verja starfsfólkið smiti. Aðgangstakmarkanir fyrir hverja búð voru í gildi og einungis tiltekinn fjöldi viðskiptavina leyfður hverju sinni. Það er hverjum manni ljóst að við þessar aðstæður er afskaplega erfitt að vera í framlínustarfi og sinna þjónustu við viðskiptavini. Veltuhraðinn í Vínbúðunum fór yfir 24 að meðaltali á árinu. Það þýðir að öllum lagernum í verslunum er velt að jafnaði tvisvar í mánuði. Það er fáheyrður veltuhraði og ljóst að allir liðir í aðfangakeðjunni verða að ganga eins og smurð vél. Það var því sérstaklega ánægjulegt að fá niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar þetta árið en ÁTVR hefur aldrei fengið hærri einkunn hjá viðskiptavinum sínum eða 75,4 stig. Niðurstaðan er mikil viðurkenning fyrir starfsfólk ÁTVR.
Á árinu 2020 komu alls 5,5 milljónir viðskiptavina til ÁTVR og keyptu þeir 26,8 milljónir lítra af áfengi. Áfengi var selt fyrir 38,4 milljarða og alls jókst áfengissalan um 18,29% á árinu. Stærsti dagurinn var 30. desember. En þann dag komu 43.767 viðskiptavinir til ÁTVR. Seldir voru 286.189 lítrar yfir daginn og fór sala dagsins yfir hálfan milljarð.
Tóbak var selt fyrir 12,5 milljarða á árinu. ÁTVR innheimtir tóbaksgjald. Gjaldið nam 5.969 m.kr. á árinu 2020 og hækkaði um 284 milljónir frá árinu 2019. Sala vindlinga í magni jókst um 8,6%. Selt magn neftóbaks var 25.434 kg og var samdrátturinn 44,8% frá síðasta ári.
Samfélagsleg ábyrgð er í kjarna fyrirtækisins og stuðlar hún að aukinni sjálfbærni með innleiðingu á hringrásarhagkerfinu. Til að ná markmiðum um sjálfbærni hefur stefna fyrirtækisins verið fléttuð saman við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og loftslagsmarkmið Festu og Reykjavíkurborgar. Unnið var áfram með Græn skref í ríkisrekstri, vistvæn innkaup og grænt bókhald. ÁTVR heldur áfram að kolefnisjafna alla beina losun og mun halda áfram að þróa kolefnisbókhald fyrirtækisins. Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að vinna með nemum í háskólasamfélaginu í sjálfbærniverkefnum.
Greint hefur verið frá sjálfbærni í rekstri fyrirtækisins frá árinu 2012 með GRI (Global Reporting Initiative) aðferðafræðinni og má sjá í sjálfbærniskýrslunni að minni sóun og áhersla á umhverfisvernd skilar fjárhagslegum ávinningi. Fyrirtækið hefur unnið að orkuskiptum í samgöngum. Nú eru 22 hleðslustöðvar fyrir bíla fyrirtækisins, starfsfólk og viðskiptavini á Stuðlahálsi 2.
Norræn samvinna systurfyrirtækja er mikilvæg og þar eru skilgreind markmið til ársins 2025. Í ár var unnið í betri nýtingu á vatni og mannréttindum í framleiðslu. Á næsta ári verður unnið í líffræðilegum fjölbreytileika og heilbrigði jarðvegsins.
Ég hef aldrei verið stoltari af því að vinna hjá ÁTVR en á síðasta ári. Starfsfólk verslunarinnar er einstakt í sinni röð. Það er með ólíkindum að mitt í öllu þessu álagi hafa viðskiptavinir ÁTVR gefið okkur hæstu einkunn sem við höfum nokkru sinni fengið. Ég færi mínu frábæra samstarfsfólki bestu þakkir fyrir samstarfið á árinu. Betra starfsfólk getur enginn forstjóri óskað sér.
Ívar J. Arndal